Siðleg ávöxtun - siðleg laun

Vilhjálmur Egilsson krefur Jóhönnu Sigurðardóttur svara um hvað hún telji "siðlega ávöxtun". Hann mætti gjarnan ganga sjálfur á undan með góðu fordæmi og tilgreina hvað hann telji "siðleg laun".

Í hvers konar einangrun lifa íslenskir eigendur stórfyrirtækja eiginlega? Skilja þeir ekki að græðgi og kröfur um háan arð eru fyrirbrigði sem nú eru orðin "svona voða 2007"?

Mér sýnist þessir menn hvorki botna upp né niður í þeim viðhorfsbreytingum sem hafa orðið í samfélaginu síðan 2007. Einmitt þessir menn eru hryggjarstykkið í Sjálfstæðisflokknum. Kannski þeir átti sig aðeins betur á stöðunni ef Sjálfstæðisflokkurinn fer niður í 25% í kosningunum í vor.


mbl.is Atvinnurekendur reiðir Jóhönnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég gaf minn 100-kall

Ottó Tynes, markaðsstjóri Rauða kross Íslands skrifaði athugasemd við færslu mína í gærkvöldi, „Ég gef ekki 100-kall“. Í kjölfar athugasemdarinnar skilaði ég mínum 100-kalli í söfnunina. (Sjá athugasemd Óttars og svar mitt hér nokkru neðar). Óttar fullyrðir sem sé að hver króna renni í söfnunina sjálfa.

En eins og segir í svari mínu neyðist ég til að standa við hryggjarstykkið í færslunni. Alltof stór hluti þess fjár sem við Íslendingar gefum í ýmis konar safnanir endar ekki í höndum góðgerðarmanna, heldur gróðagerðarmanna.

Í framhaldinu finnst mér full ástæða til að velta hér upp ákveðnum möguleikum til að skilgreina vandann og fyrirbyggja.

Tökum bara þessa ágætu söfnun sem dæmi: Allar auglýsingar eru kostaðar af stóru bönkunum þremur, sem sagt almannafé. Að auki segir Ottó Tynes að RÚV veiti afslátt af auglýsingum. Það þýðir eiginlega að spurningu minni er ósvarað. Hvað kostar söfnunin?

Víkjum nú að fáeinum atriðum sem mætti hreinlega lögleiða til að koma veg fyrir misnotkun gróðagerðarstarfsemi á góðgerðastarfsemi.

1. Fjölmiðlar skulu verja a.m.k. 5% af auglýsingaplássi sínu, án endurgjalds, til auglýsinga viðurkenndra góðgerðasamtaka, þ.m.t. íþrótta- æskulýðs og tómstundafélaga, og skila um það skýrslu ár hvert.

2. Góðgerðasamtökum, þ.m.t. íþrótta- æskulýðs og tómstundafélögum, er óheimilt að verja meiru en 20% af innkomu til kostnaðar við fjáröflunina. Slík samtök skulu skila skýrslu ár hvert.

Mér er fullljóst að hér vantar bæði nánari útfærslu og sektarákvæði. En þetta er ekki frumvarp, heldur innlegg í hugmyndabanka.


Lilja ámóta vitlaus og Tryggvi

Er hagfræðin svo arfavitlaus fræðigrein að nám í henni jafngildi útþurrkun allrar heilbrigðrar skynsemi? Mér dettur þetta einna helst í hug við lestur greinar Lilju Mósesdóttur á Smugunni í dag. Hún virðist haldin svipaðri firringu og Tryggvi Þór Herbertsson, nema hvað hún talar um ákveðna krónutölu en ekki prósentur.

Lilja vill lækka öll húsnæðislán um 4 milljónir. Húsnæðislánið mitt færi þá niður í 8,5 milljónir og yrði 700 þúsundum lægra en þegar það var tekið fyrir rúmum 4 árum. Ég þarf ekki þessar 4 milljónir, en ég  þekki fólk sem þarf á einhverri niðurfellingu að halda.

Þetta kostar 300 milljarða, segir Lilja. Er það ekki eitthvað nálægt þremur fjórðu af öllum tekjum ríkisins í ár? En hvað kostar að hjálpa einfaldlega þeim sem eru hjálparþurfi? Að lækka lán illa settra fjölskyldna þannig að eiginfjárstaðan skríði upp fyrir núllið? Er það ekki einhver miklu lægri tala?

Þessa 300 milljarða ætlar Lilja að fjármagna með hækkun skatta á þá sem þola hærri skatta. Gott og vel. Ég vil líka hækka skatta á þá sem þola hærri skatta. En við þurfum að nota þá peninga sem þannig fást til að fylla í fjárlagagatið.

Ef við höfum á annað borð svigrúm til að hækka skatta um 300 milljarða, þá gætum við kannski bæði þurrkað út fjárlagahallann í heilu lagi og lækkað íbúðalán þeirra sem eru að kikna undan þeim.

Og þá erum við auðvitað í fínum málum.


Ég gef ekki 100-kall

Það er reyndar ekki af nísku. Sannleikurinn er nefnilega sá að mig grunar að megnið af þeim peningum sem safnast fari í kostnað. „Hringdu í 90 15 100 og gefðu 100-kall til hjálparstarfs innanlands“. Efnislega hljóða auglýsingarnar eitthvað á þessa leið.

Auglýst í sjónvarpi. Hvað kostar hver birting? Símanúmerið er svonefnt 900-númer og söfnun í gegnum þessi númer er yfirleitt ekki ókeypis. Ef allir Íslendingar gæfu 100-kall yrði niðurstöðutala u.þ.b. 320.000 x 100 = 32.000.000,- Sem sagt 32 milljónir. Samt raunsærra að ímynda sér 100-kall á heimili sem gæfi kannski 10 milljónir og fínn árangur væri annað hvert heimili eða 5 milljónir.

Og miðað við fjölda auglýsinga, velti ég því fyrir mér hvort ein milljón verði eftir, kannski hálf, eða kannski ekki neitt.

Því miður er sannleikurinn sá, að megnið af því sem við gefum til góðgerðarmála rennur til gróðagerðarmanna. Fyrir 30 árum mátti heita staðlað að sölufólkið sem hringdi til að biðja um framlög fengi 20% í sinn hlut, eða 25% ef það hringdi úr eigin síma.

Þetta er löngu liðin tíð. Nú eru gróðafyrirtæki komin inn á góðgerðamarkaðinn. Slík fyrirtæki taka gjarnan milljón eða tvær í „startgjald“ og að auki hlutfall af innkomu, jafnvel 30-50%.

Þess vegna er ég löngu hættur að segja já við fólk sem hringir og biður um peninga til góðgerðastarfsemi.


Snjallræði Tryggva Þórs

Nú vill þjóðhagfræðingurinn og verðandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins fyrir Norðausturkjördæmi fella niður 20% af skuldum heimilanna í landinu – allra jafnt. Þessi hugmynd hefur verið kennd við Framsóknarmenn, en mun sem sagt í upphafi ættuð frá honum.

Tryggvi þór færir fram þau rök að þetta kosti ekki neitt vegna þess að í raun sé þegar búið að afskrifa að meðaltali 50% þessara skulda við flutninginn inn í nýju bankana. Með því að innheimta aðeins 80% telur hann að fleiri muni geta staðið í skilum og færri verði gjaldþrota. „Gæði lánasafnsins“ eins og það heitir á bankamáli, muni þar með aukast, segir Tryggvi.

Gott og vel. Ég ætla ekki að draga í efa að þetta sé rétt hjá þjóðhagfræðingnum.

En mig langar að stinga upp á örlítið breyttri útfærslu: Tökum þessi 20% (sem í raun eru auðvitað ákveðin krónutala) og notum upphæðina til að afskrifa 30 eða jafnvel 40% hjá þeim sem verst eru settir, 20% hjá þeim sem það dugar og svo 15, 10 og 5% hjá mörgum öðrum sem minna þurfa. En afskrifum ekki neitt hjá fólki eins og mér og Tryggva, sem þurfum ekkert.

Með þessu móti getum við nefnilega aukið „gæði" lánasafnsins margfalt meira. Og þetta kostar vel að merkja ekki neitt. Í því efni vona ég að þjóðhagfræðingurinn hafi rétt fyrir sér.
mbl.is Tryggvi Þór: 20% af skuldum heimilanna verði felldar niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamli hrepparígurinn

Elín Líndal í 4. sæti. Flottur árangur miðað við aðstæður. Norðvesturkjördæmi er samsett úr þremur kjördæmum. Og gamli hrepparígurinn gildir enn. Í fyrsta sæti Akranes og nágrenni, í öðru sæti Sauðárkrókur og nágrenni og í þriðja sæti Ísafjörður og nágrenni.

Nú ber að vísu nýrra við. Skagfirðingur í fyrsta sæti. Vestlendingar, Vestfirðingar og Norðvestlingar komu sér saman um að hafna öllum þeim "góðu" mönnum sem komu af Stór-Hafnafjarðarsvæðinu og ætluðu allt í einu að frelsa heiminn.

Fyrsta sætið kom sem sé í hlut gamla "Norðurlands vestra" að þessu sinni. En líka þar gildir hrepparígurinn. Ef þetta átti nú að gerast á annað borð, hefur Skagfirðingur meira fylgi en Húnvetningur. Austur-Húnvetningur hefði kannski átt séns - en ekki Elín Líndal. Hún er nefnilega Vestur-Húnvetningur og þar með úr afar fámennu samfélagi.

Ekki ætla ég að draga í efa að Gunnar Bragi hafi sitthvað til síns ágætis. En hitt ætla ég að leyfa mér að fullyrða að ef Elín Líndal hefði alltaf notið sannmælis, væri hún trúlega núna að ljúka svo sem 20 ára þingferli.


mbl.is Gunnar Bragi sigraði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífseigt misrétti

Misrétti kynjanna er lífsseigt. Í sjálfu sér er ekki endilega við Framsókn né Vinstri græn að sakast. Þessir flokkar áttu bara rétt á einum fulltrúa, sem af sjálfu leiðir að hlaut að verða annaðhvort karl eða kona. Og hér hagar tilviljunin því reyndar svo að fulltrúar þessara tveggja flokka eru karl og kona.

En mér finnst satt að segja ótrúlega fáránlegt að Samfylkingin sem fékk tvo fulltrúa, skuli ekki hafa gætt hins sjálfsagða jafnréttis og tilnefnt konu og karl. Jafnrétti kynjanna er jú beinlínis yfirlýst stefna flokksins.

Svo má auðvitað segja að Sjálfstæðisflokkurinn sem hér hefur fjóra fulltrúa hefði átt að tilnefna tvær konur og tvo karla. En það er ekki mitt að gera kröfur til Sjálfstæðisflokksins. Hann er bara eins og hann er.


mbl.is Þingkonur mótmæla karlanefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki veitir okkur af

Okkur veitir ekki af þeirri hjálp sem við getum mögulega fengið við að koma lögum yfir þá sem kunna að hafa svikið fé út úr bönkunum sem við héldum öll að þeir væru að reka af svo einstakri viðskiptasnilld. Víðtæk reynsla þessarar ágætu konu á eftir að koma sér vel.

Auðvitað hefði þetta starf átt að hefjast af fullum krafti strax í október, en á þeim tíma vorum við öll í sjokki, enda bankahrunið eitt og sér nóg áfall. Það sveið meira en nógu sárt að þurfa að horfast í augu við þann sannleika að mennirnir voru engir snillingar, heldur glæframenn, strákar í sandkassaleik, sem höfðu fengið bankana til að leika sér að.

Á síðustu vikum hafa hins komið fram æ fleiri vísbendingar um að þessir miklu viðskiptasnillingar hafi komið sér undan stórum hluta eðlilegra skattgreiðslna og hugsanlega tekist að stinga undan stórfé, kannski svo miklum peningum að ef okkur tækist að klófesta þá, þyrftum við ekki að hafa neinar stórar áhyggjur af fjárlagahallanum.

Hvort heldur þetta er nú rétt eða rangt, verðum við að komast til botns í því. Það kostar auðvitað peninga. En jafnvel þótt rannsóknin skili engum peningum þegar upp er staðið, verður hún að mínu viti hverrar krónu virði. Ég er fyrir mína parta tilbúinn að borga dálitla upphæð fyrir það eitt að fá sannleikann fram í dagsljósið.


mbl.is Hægt að nýta sambönd Joly
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við fjölmennum

Það fer ekki milli mála að það er raunverulegur vilji Samfylkingarfólks - og sennilega meginþorra alls almennings - að Jóhanna Sigurðardóttir taki nú við formennsku í flokknum. Það var engin tilviljun að Jóhanna skyldi verða fyrir valinu sem forsætisráðherra í veikindaforföllum Ingibjargar Sólrúnar. Hún nýtur almenns trausts og virðingar, ekki aðeins innan eigin flokks, heldur meðal þjóðarinnar allrar.

Við þær aðstæður sem nú ríkja í samfélagi okkar er ekkert mikilvægara en almennt traust. Þess vegna fjölmennum við í blysförina í kvöld - ekki aðeins Samfylkingarfólk, heldur miklu fleiri.


mbl.is Blysför til Jóhönnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tíminn er útrunninn

Þetta sjónarmið Geirs Haarde er nokkuð merkilegt. Ég gerði reyndar stutt hlé á vinnu og kíkti á umræðuna í sjónvarpinu. Margir Sjálfstæðismenn á mælendaskrá og þeir tveir sem ég sá og heyrði, Björn Bjarnason og Sturla Böðvarsson, virtust reyndar einkum og sér í lagi hafa áhyggjur af því að afgreiða ætti nýja stjórnarskrá í fljótheitum. Ekki ætti að gefa sér nægan tíma.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið með völd langsamlega lengst allra flokka á lýðveldistímanum. Andstaða við sjálfsagðar lýðræðisumbætur á stjórnarskrá hefur ekki komið frá samstarfsflokkum þeirra. Lýðræðisumbætur á borð við þjóðaratkvæðagreiðslur um mikilvæg mál eða að ráðherrar hafi ekki atkvæðisrétt á þingi.

Andstaðan hefur komið frá Sjálfstæðisflokknum. Þar gildir tregðulögmálið. Síðustu 50 ár hefur aldrei liðið svo heilt kjörtímabil að Sjálfstæðismenn hafi ekki setið í ríkisstjórn. Sjálfstæðismenn eru vanir að ráða öllu sem þeir vilja án þess að spyrja kóng né prest - og síst af öllu vilja þeir þurfa að spyrja þjóðina sjálfa.

Sjálfstæðismenn hafa haft marga áratugi til að gera lýðræðisumbætur á stjórnarskránni, en alveg látið það eiga sig. Nú er þjóðin búin að fá nóg. Tíminn er útrunninn. Nú verður þetta verkefni sett í hendur stjórnlagaþings.


mbl.is Pukrast með breytingar á stjórnarskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband