Hættulegt frumvarp

Lög og réttlæti eru því miður tvö aðskilin hugtök og eiga stundum alls ekkert sameiginlegt. Það gildir hér. Frá sjónarmiði réttlætisins má kalla það skynsamlega hugmynd að setja einfaldlega lög um að öll gengislán skuli gerð upp með sama hætti. En Alþingi er hvorki heimilt að setja afturvirk lög né lög sem brjóta í bága við stjórnarskrá - í þessu tilviki eignarréttarákvæðið.

Landsbankinn gæti gefið út skaðleysisyfirlýsingu vegna þess að hann er í ríkiseigu og skaðinn lendir því á ríkinu hvort eð er. Arionbanki og Íslandsbanki eru í eigu erlendra kröfuhafa og það er barnaskapur að ímynda sér að kröfuhafarnir muni af góðmennsku sinni gefa eftir peninga sem þeir eiga lagalegan rétt til.

Með samþykkt þessa frumvarps leggur Alþingi gríðarlegar ábyrgðir á ríkissjóð, ábyrgðir sem óhjákvæmilega hljóta að falla á hann. Þótt ákveðnar gerðir gjaldeyrislána hafi verið dæmdar ólögmætar, er fullvíst að ýmis önnur gjaldeyrislán verða dæmd lögmæt. Mismunurinn verður sóttur í ríkissjóð með atbeina dómstóla.

Menn skyldu tala varlega um öðlunginn og mannréttindalögmanninn Ragnar Aðalsteinsson. Hann veit nokk hvað hann segir og ég giska á að tilgangur hans með "hótunum" um málssókn sé einmitt sá, að koma Árna Páli og þingmeirihlutanum í skilning um að þessi leið sé einfaldlega ekki fær.

Þessi leið er nefnilega ekki fær, því miður. Hitt er verra að hvorki er vitað hve mörgum hún hjálpar, né hversu marga tugi milljarða hún á eftir að kosta ríkissjóð.

Við verðum að sætta okkur við þá kaldranalegu staðreynd að þegar lögin og réttlætið greinir á, þá gilda lögin.

Og af því leiðir að þetta frumvarp er því miður beinlínis hættulegt.


mbl.is Bankar veita ekki skaðleysisyfirlýsingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Sæll. Ef stökkbreitt lán eru ekki leiðrétt þá er ekki hægt að borga þau og ekki fæst króna uppí kröfuna af gjaldþrota fyrirtæki því ættu bankarnir að sjá hag sinn í því að leiðrétta lánið án þess að vera þvingaðir til þess og allir standa uppi sem sigurvegarar!

Sigurður Haraldsson, 14.11.2010 kl. 01:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband