Ég gef ekki 100-kall

Það er reyndar ekki af nísku. Sannleikurinn er nefnilega sá að mig grunar að megnið af þeim peningum sem safnast fari í kostnað. „Hringdu í 90 15 100 og gefðu 100-kall til hjálparstarfs innanlands“. Efnislega hljóða auglýsingarnar eitthvað á þessa leið.

Auglýst í sjónvarpi. Hvað kostar hver birting? Símanúmerið er svonefnt 900-númer og söfnun í gegnum þessi númer er yfirleitt ekki ókeypis. Ef allir Íslendingar gæfu 100-kall yrði niðurstöðutala u.þ.b. 320.000 x 100 = 32.000.000,- Sem sagt 32 milljónir. Samt raunsærra að ímynda sér 100-kall á heimili sem gæfi kannski 10 milljónir og fínn árangur væri annað hvert heimili eða 5 milljónir.

Og miðað við fjölda auglýsinga, velti ég því fyrir mér hvort ein milljón verði eftir, kannski hálf, eða kannski ekki neitt.

Því miður er sannleikurinn sá, að megnið af því sem við gefum til góðgerðarmála rennur til gróðagerðarmanna. Fyrir 30 árum mátti heita staðlað að sölufólkið sem hringdi til að biðja um framlög fengi 20% í sinn hlut, eða 25% ef það hringdi úr eigin síma.

Þetta er löngu liðin tíð. Nú eru gróðafyrirtæki komin inn á góðgerðamarkaðinn. Slík fyrirtæki taka gjarnan milljón eða tvær í „startgjald“ og að auki hlutfall af innkomu, jafnvel 30-50%.

Þess vegna er ég löngu hættur að segja já við fólk sem hringir og biður um peninga til góðgerðastarfsemi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Jón,

ég gat ekki orða bundist til að benda þér á nokkrar staðreyndir varðandi athugasemdir þínar hérna. Það er leiðinlegt að fólk skuli staðhæfa svona á opinberum vettvangi um hluti sem eru ekki sannir og því langaði mig að leiðrétta það. Vissulega er mikill kostnaður af svona auglýsingaherferð en því miður þá er það eina leiðin til að ná til fólks. Þessi söfnun er hins vegar styrkt af SPRON, Landsbankanum, Íslandsbanka og Kaupþing sem borga birtingar auglýsinganna. Síminn og hin símafélögin gefa okkur alla þjónustu þannig að hver einasta króna sem fer í söfnunina endar í því hjálparstarfi sem við erum að starfa að. Auk þess erum við að vinna þetta í samstarfi með RÚV og því fáum við að auglýsa þar á hagkvæmum kjörum (þú hefur kannski tekið eftir því að lítið er um birtingar í blöðunum og það er einmitt vegna kostnaðar).

Við hefðum getað farið aðrar leiðir í söfnuninni sem hefðu líklega gefið okkur mun hærri upphæð en okkur fannst það falleg hugmynd að sameina alla landsmenn og með því að biðja um svona lága upphæð ættu allir að geta tekið þátt - en vissulega eru alltaf einhverjir sem líta hjálparstarf samsærisaugum.

mbk,

Ottó Tynes, markaðsstjóri Rauða kross Íslands

Ottó Tynes (IP-tala skráð) 18.3.2009 kl. 09:55

2 Smámynd: Jón Daníelsson

Sæll Ottó.

Bestu þakkir fyrir þessa athugasemd. Og mér þykir vissulega vænt um að staðið skuli vera að þessari söfnun eins og þú lýsir. Ég get glatt þig með því að eftir að hafa lesið athugasemdina, hef ég nú hringt og gefið minn 100-kall. Ég vil nefnilega afar gjarnan styðja góð málefni.

Því miður neyðist ég þó til að standa við hryggjarstykkið í þessari færslu. Gróðagerðarmenn hafa haslað sér völl í söfnun til góðgerðarmála. Ég þekki sjálfur dæmi um að fjársöfnun hafi skilað ótrúlega lágu hlutfalli til málefnisins.

Og ég held að ég sé ekki einn um að vera steinhættur að segja já. Dæmin um einkagróða af góðgerðastarfsemi eru mörg og hafa stórlega spillt fyrir margvíslegri fjáröflun sem annars ætti meira en fullan rétt á sér.

Kannski ættuð þið og öll önnur samtök á þessum vettvangi að sameinast um nýjar vinnureglur - sem gætu endurskapað traust, þannig að ég og svo margir aðrir geti öðlast fullvissu um að við séum í rauninn að gefa til góðgerðarmála, en ekki til gróðagerðarmanna.

Bestu kveðjur - Jón Dan

Jón Daníelsson, 18.3.2009 kl. 18:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband