Færsluflokkur: Bloggar

Fróðlegt að sjá muninn

Nokkuð merkilegt mál. Yfirlögfræðingur Seðlabankans mætir á fund hjá utanríkismálanefnd og lýsir þar áliti sínu á ýmsum lögfræðilegum álitaefnum í IceSave-samningnum. Tveimur dögum síðar er svo von á sama yfirlögfræðingi á fund nefndarinnar, en að þessu sinni með formlegt álit Seðlabankans varðandi sömu álitaefnin.

Það hlýtur að verða fróðlegt að skoða mismuninn á persónulegu og formlegu áliti sama lögfræðingsins.


mbl.is Krefst þess að Árni Þór biðjist afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gildir eitt um atkvæði en annað um tillögur?

Það vildi reyndar svo til að ég sá þetta innlegg Steingríms núna um hádegisbilið. Og fannst það reyndar nokkuð merkilegt. Steingrímur fullyrti sem sé að allir þingmenn væru frjálsir að því að greiða atkvæði samkvæmt sannfæringu sinni, en sagði líka (efnislega) að öðru máli gilti um aðild að tillögum þar sem línur skærust milli stjórnar og stjórnarandstöðu.

Með þessum orðum sýnist mér Steingrímur staðfesta að Ásmundur Daðason hafi verið beittur þrýstingi - sem gjarnan má kalla kúgun - í þessu máli.

Mér þykir það nokkuð þröng túlkun á stjórnarskrárvörðum rétti þingmanna - og jafnframt stjórnarskrárbundinni skyldu - að samviskufrelsið taki einungis til þess hvernig þeir greiða atkvæði, en allt annað gildi um hvaða tillögur þeim leyfist að flytja.

Það hefur vissulega lengi tíðkast að þingmenn stjórnarflokka hafi verið barðir til hlýðni, en ég hafði satt að segja gert mér vonir um ný og lýðræðislegri vinnubrögð undir forystu þessarar nýju ríkisstjórnar. Þetta mál er hvorki til þess fallið að auka traust almennings á ríkisstjórninni, né auka virðingu fyrir stjórnmálamönnum - en sú virðing er held ég orðin ansi rýr.


mbl.is Steingrímur J.: Engin kúgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðaratkvæðagreiðslu um IceLoose

Þetta er augljóslega afar vondur samningur. Öll ábyrgðin hvílir á okkur. Af hverju keyptu Bretar ekki allar þessar góðu eignir fyrir svo sem 550 milljarða. Þá skulduðum við 100 milljarða og sú tala væri a.m.k. á hreinu. En samkvæmt þessu er okkar hlutur á bilinu 5 - 130% (eða svo).

Nú þurfa fáeinir stjórnarþingmenn að sýna að þeir hafi bein í nefinu og fella þessa vitleysu. Sú fjárskuldbinding sem í samningnum felst verður að fara fyrir þingið samkvæmt stjórnarskrá. Annars er hún ógild.

Og hafi þingmennirnir ekki bein í nefinu kemur að forseta Íslands. Hann getur neitað að skrifa undir og þannig sett málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann hefur áður neitað að skrifa undir. Tilefnið þá var vissulega gott og gilt en ekki nándar jafn áríðandi og núna.

Ég velti þessu fyrir mér í örlítið lengra máli á heimasíðunni minni.


mbl.is Hækkar um 37 milljarða árlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varðar málið öryggi ríkisins?

Mörg brýn og erfið úrlausnarefni bíða þessarar nýju ríkisstjórnar. Grundvallarforsenda þess að hún ráði við viðfangsefni sín er að hún öðlist traust. Ekkert er nýju stjórninni nauðsynlegra en traust almennings. Og það er ekki líklegt til að auka traust, að byrja á að setja einhvern leyndarhjúp yfir pappíra . Síst af öllu þegar ekki er um merkilegri pappír að ræða en uppkast að þingsályktunartillögu.

Það er ekki eins og þetta mál varði öryggi ríkisins - eða hvað?


mbl.is „Kanna hvort einhverjir fletir séu til samstöðu"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skiljum óráðsíufyrirtækin eftir

Það má vel vera rétt, að til séu svo skuldug útgerðarfyrirtæki, að þau ráði ekki við að skila kvótanum inn á 20 árum - nái sem sé ekki að skila 5-10% arði á ári. Það eru illa rekin fyrirtæki.

Þessi óráðsíufyrirtæki á að skilja eftir í gömlu bönkunum og gera þau upp sem fyrst. Það er reyndar almennt afar mikilvægt að greina illa rekin fyrirtæki frá öðrum, áður en gengið er endanlega frá því hvaða eigna- og skuldasöfn verða flutt yfir í nýju bankana.

Þau sjávarútvegsfyrirtæki sem verst eru sett, eru væntanlega þau sem fengið hafa bankalán til að kaupa kvóta gegn veði í kvótanum sjálfum. Íslenskur almenningur er hinn raunverulegi eigandi þessarar auðlindar, en ber hins vegar enga sök á því hvernig komið er. Sökina bera gömlu bankarnir sem lánuðu gegn svo ótryggu veði og svo náttúrulega þeir sem tóku slík lán.

Með því að skilja verst settu fyrirtækin eftir í gömlu bönkunum og leyfa þeim einfaldlega að fara í þrot, koma aflaheimildir þessara fyrirtækja strax inn til ríkisins. Það skapar heilmikið svigrúm og færir ríkissjóði væntanlega líka einhverjar tekjur.


mbl.is Mun setja bankana aftur í þrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hversu fast er hægt að sofa?

Kannski kemur það nú í ljós að bankasnillingarnir og útrásarjöfrarnir sem við höfum haft svo mikið álit á síðustu árin, hafi í rauninni allan tímann verið ótíndir glæpamenn. En hitt getur svo sem líka verið að ekki náist að sanna mikið á þá. Svo mikið er víst að nánast öll þjóðin myndi varpa öndinni léttar ef sem allra flestir af þessum stórlöxum yrðu læstir inni í nokkur ár.

Reyndar þótti mér hálfskrýtið á sínum tíma að Björgólfur Guðmundsson skyldi fá að kaupa banka. Hann var nefnilega sakfelldur í Hafskipsmálinu forðum, þótt ekki tækist að sanna á hann nema brot af því sem hann var sakaður um. Í Hafskipsmálinu komu ýmsir leynireikningar mjög við sögu og sú aðferðafræði minnir óneitanlega á þá flækju skúffufyrirtækja sem starfsmenn skattstjóra eru nú að rannsaka.

Það þarf kannski ekki að koma neinum á óvart þótt gráðugir peningamenn beiti öllum brögðum til að auka hagnað sinn sem mest og skirrist jafnvel ekki við að brjóta lög - eða geri a.m.k. sitt besta til að fara í kringum þau.  En sök stjórnvalda og eftirlitsstofnana er líka mikil.

Ég hélt satt að segja að hjá Seðlabankanum, Fjármálaeftirlitinu, Ríkisskattstjóra og Skattrannsóknastjóra væri stöðugt verið að fylgjast með þessum mönnum. Og ég stóð líka í þeirri meiningu að ríkisvaldið sæi til þess að þessar stofnanir væru nægilega vel mannaðar til að geta staðið sig í stykkinu.

En þegar allt hrundi eins og spilaborg einn góðan veðurdag í haust, kom í ljós að allir þessir varðmenn höfðu verið steinsofandi. Eftir á að hyggja virðast þeir meira að segja hafa sofið aldeilis ótrúlega fast.


mbl.is Rannsaka félög í skattaskjólum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju ekki að skella Íslandi í lás?

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO, hefur hækkað viðbúnað sinn upp á næsthæsta stig og telur þar með hættu á að svínapestin verði að heimsfaraldri. Það fylgir sögunni að menn telji ekki þjóna tilgangi að loka landamærum, vegna þess hve víða þessi flensa er þegar komin. En gildir það um Ísland?

Það geta fylgt því vissir kostir að eiga heima á eyju úti í reginhafi. Við þurfum í rauninni ekki annað en að stöðva flugumferð til að loka landamærunum. En það þyrfti þá auðvitað að gerast strax. Samt er ekki einu sinni minnst á þetta úrræði. Hver er ástæðan?

Enn sem komið er vita menn reyndar tiltölulega lítið um þessa furðuflensu sem virðist hvergi drepa fólk nema í Mexíkó. Hún gæti sem sagt verið ámóta meinlítil og þær árvissu flensur sem hingað berast yfirleitt upp úr áramótum. En á hinn bóginn gæti hún líka verið mun skæðari. Sumir virðast vilja líkja henni við Spænsku veikina sem herjaði 1918. Og ef sá möguleiki er fyrir hendi, ætti óhjákvæmilega að koma til álita fyrir okkur Íslendinga að einangra okkur frá umheiminum a.m.k. í bili.

Ef allt færi á versta veg þyrftum við að halda okkur í sóttkví þar til búið væri að finna framleiða bóluefni gegn veirunni. Þetta gæti tekið nokkra mánuði, kannski hálft ár. En hvers vegna dettur engum í hug að einangra Ísland?

Ekki veit ég.


Landsfundarsamþykkt VG engin fyrirstaða

Það virðist þykja fréttnæmast eftir þennan borgarafundi á Selfossi að Samfylking og Vinstri græn séu ósammála um ESB-aðild. Það hefur held ég þótt merkilegast eftir alla borgarafundina hingað til.

Svo mikið er þó víst að landsfundarsamþykkt VG stendur ekki í vegi fyrir því að farið verði í aðildarviðræður strax. Kaflinn um ESB er svona:

"Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur nú sem fyrr að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins.  Sjálfsagt er og brýnt að fram fari opin og lýðræðisleg umræða um samskipti Íslands og sambandsins. Landsfundur VG leggur áherslu á að aðild íslands að ESB eigi að leiða til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Landsfundur telur mikilvægt að fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu fái rækilega umræðu og að hliðsjón verði höfð af væntanlegum stjórnarskrábreytingum og hvað eðlilegt getur talist þegar afdrifaríkar ákvarðanir eru teknar um framsal og fullveldi."

 

Hér er ekki eitt orð um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Flokkurinn leggur áherslu á að aðildin verði leidd til lykta í Þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er nú allt og sumt. Og um það eru reyndar held ég allir sammála.


mbl.is VG ekki tilbúinn í aðildarviðræður í sumar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stétt með stétt

Málið er reyndar ekki alveg svo einfalt að starfsfólk í heilbrigðisgeiranum sé allt á sömu launum. Þar ríkir þvert á móti gríðarlegur launamunur og mætti örugglega lækka laun í efri hlutanum talsvert áður en að því kemur að segja upp fólki.

Það er í rauninni viðhorfið sem skiptir öllu. Getum við byggt okkur upp það sameiginlega viðhorf að við ætlum að komast í gegnum þessar þrengingar saman? Þá ætti að vera hægt að lækka launakostnað í heilbrigðisþjónustu, og raunar miklu víðar í opinberri þjónustu, með því einu að jafna launamun niður á við.

Í heildina tekið vinnst stór árangur með þessari aðferð: Annars vegar næst verulegur sparnaður ríkisútgjalda, hins vegar þurfa færri að verða án atvinnu. Og minna atvinnuleysi dregur svo aftur úr hækkun ríkisútgjalda til atvinnuleysisbóta.

Sem þjóðarheild getum við dregið ótrúlega mikið úr áfallinu með þessari viðhorfsbreytingu einni saman.

En ef "hver-er-sjálfum-sér-næstur"-hugarfarið á ríkja áfram, er óhjákvæmilegt að stéttaskiptingin verði enn áþreifanlegri, við fáum nýja stétt langtímaatvinnulausra, sem sumir munu aldrei eiga afturkvæmt á vinnumarkaðinn, og við verðum miklu lengur að vinna okkur út úr kreppunni.

Segja má að kjörorð Sjálfstæðisflokksins, „Stétt með stétt“ eigi hér vel við. En þá væri líka ágætt að meina eitthvað með því.


mbl.is Frekar lækka laun en fækka störfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eðlilegar skýringar

Það er í sjálfu sér alveg eðlilegt að styrkir fyrirtækja til stjórnmálaflokka hafi náð hámarki á árinu 2006. Um haustið náðist loksins samkomulag um að koma lögum yfir þessa fjáröflun. Lögin voru samþykkt fyrir jól og tóku gildi 1. janúar 2007. Samkvæmt þeim er flokkunum óheimilt að taka við hærra framlagi en 300 þúsund kr. frá hverju fyrirtæki.

Þetta þýddi ósköp einfaldlega að fram til áramóta var "síðasti séns" að nálgast hærri fjárframlög. Þegar það er tekið með í reikninginn að flokkarnir voru eðli málsins samkvæmt trúlega flestir skuldugir eftir sveitarstjórnakosningar vorið 2006 og alþingiskosningar voru á næsta leiti, vorið 2007, er ekkert skrýtið þótt menn nýttu þessa "tímaglufu" til að afla fjár áður en nýju lögin tækju gildi.

Við þetta er í sjálfu sér ekki margt að athuga. Nú hefur komið fram að Landsbankinn hafði fyrr á árinu styrkt Sjálfstæðisflokkinn um 5 milljónir. Í því ljósi geta hæstu styrkir til Framsóknarflokks og Samfylkingar, einmitt 5 milljónir, varla talist "út úr korti".

En um 30 milljónir og 25 milljóna viðbótarstyrk frá Landsbankanum gegnir óneitanlega dálítið öðru máli. 30 milljónirnar sem komu inn á reikning Sjálfstæðisflokksins þann 29. desember 2006, voru 100-föld sú upphæð sem flokknum hefði verið leyfilegt að þiggja frá FL-Group aðeins þremur dögum síðar.

Og enn og aftur. Ungi framkvæmdastjórinn sem þorði ekki að taka við öllum þessum peningum á eigin ábyrgð, heldur spurði sjálfan formann flokksins - hann var krossfestur opinberlega á föstudaginn langa. Merkilegt nokk hef ég ekki orðið var við neina upprisu hans í dag.

Andri Óttarsson kynni þó að eiga framtíð fyrir sér á "Nýja Íslandi". Hann sýndi nefnilega á sinn hátt ábyrga hegðun, með því að spyrja Geir H. Haarde. Andri Óttarsson er kannski nokkuð heiðarlegur, ungur maður.


mbl.is Fengu meiri styrki árið 2006
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband