Hversu fast er hægt að sofa?

Kannski kemur það nú í ljós að bankasnillingarnir og útrásarjöfrarnir sem við höfum haft svo mikið álit á síðustu árin, hafi í rauninni allan tímann verið ótíndir glæpamenn. En hitt getur svo sem líka verið að ekki náist að sanna mikið á þá. Svo mikið er víst að nánast öll þjóðin myndi varpa öndinni léttar ef sem allra flestir af þessum stórlöxum yrðu læstir inni í nokkur ár.

Reyndar þótti mér hálfskrýtið á sínum tíma að Björgólfur Guðmundsson skyldi fá að kaupa banka. Hann var nefnilega sakfelldur í Hafskipsmálinu forðum, þótt ekki tækist að sanna á hann nema brot af því sem hann var sakaður um. Í Hafskipsmálinu komu ýmsir leynireikningar mjög við sögu og sú aðferðafræði minnir óneitanlega á þá flækju skúffufyrirtækja sem starfsmenn skattstjóra eru nú að rannsaka.

Það þarf kannski ekki að koma neinum á óvart þótt gráðugir peningamenn beiti öllum brögðum til að auka hagnað sinn sem mest og skirrist jafnvel ekki við að brjóta lög - eða geri a.m.k. sitt besta til að fara í kringum þau.  En sök stjórnvalda og eftirlitsstofnana er líka mikil.

Ég hélt satt að segja að hjá Seðlabankanum, Fjármálaeftirlitinu, Ríkisskattstjóra og Skattrannsóknastjóra væri stöðugt verið að fylgjast með þessum mönnum. Og ég stóð líka í þeirri meiningu að ríkisvaldið sæi til þess að þessar stofnanir væru nægilega vel mannaðar til að geta staðið sig í stykkinu.

En þegar allt hrundi eins og spilaborg einn góðan veðurdag í haust, kom í ljós að allir þessir varðmenn höfðu verið steinsofandi. Eftir á að hyggja virðast þeir meira að segja hafa sofið aldeilis ótrúlega fast.


mbl.is Rannsaka félög í skattaskjólum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Óskars

innlitskvitt

Eftirlitið er allavega vakandi ef "litli" maðurinn gleymir einhverju á sinni skattaskýrslu.

Sigrún Óskars, 1.5.2009 kl. 22:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband