Fátt nýtt í þessu

Já. Sjálfstæðisflokkurinn fékk sem sé 30 milljónir frá FL og 25 milljónir frá Landsbankanum árið 2006. Ekki kemur mér þetta á óvart. Mér kemur heldur ekki á óvart að menn skuli nú lofa að endurgreiða þessa peninga. Og ég er ekki einu sinni hissa á flokkurinn skuli hafa efni á því, svona rétt fyrir kosningar.

Það eina sem er nýtt í málinu, er að þetta skyldi komast upp. Ég efast ekki um að Sjálfstæðisflokkurinn hefur áratugum saman rakað að sér stórum upphæðum frá stöndugum fyrirtækjum. Flokkurinn hefur alltaf verið málsvari og verndari gróðahyggjunnar, eins konar stjórnmálaarmur formlegra og óformlegra samtaka auðjöfra.

Þessar fréttir rifja upp fyrir mér dálitla sögu sem pabbi sagði mér þegar ég var á barnsaldri til skýringar á því hversu miklum peningum Sjálfstæðisflokkurinn hefði úr að spila. Sagan var á þá leið að eigandi stórfyrirtækis í Reykjavík hefði átt húskofa sem var orðinn fyrir skipulagi og þurfti að rífa. Slíkt tækifæri var ekki látið ónotað. Borgin keypti húsið á tvöföldu verði og eigandinn gaf svo helminginn af hagnaðinum í flokkssjóð.

Ekki sel ég þessa sögu dýrara en ég keypti. Auðvitað gæti þetta verið kjaftasaga og enginn fótur fyrir henni. Fréttirnar af tugmilljónagjöfum stórfyrirtækja í flokkssjóð árið 2006, sýna á hinn bóginn að hún gæti sem best verið sönn.

Og það skyldi nú ekki koma upp úr kafinu þegar gögn Landsbankans verða skoðuð nánar, að þessar 25 milljónir hafi kannski alls ekki verið eina gjöf bankans í flokkssjóð. Var það ekki ákvörðun Sjálfstæðisráðherranna að Björgúlfarnir fengju að kaupa Landsbankann á lægra verði en aðrir buðu? Hvernig skyldu þeir hafa þakkað fyrir sig? Ég bara spyr?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband