17.8.2009 | 16:56
Hér þarf aðferðir kremlólógíunnar
Sitt sýnist hverjum um ummæli formanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Ýmist virðast menn álíta að ætlunin sé að koma þeim skilaboðum til Breta og Hollendinga að við séum að reyna að snuða þá (Magnús Helgi Björgvinsson), eða þá að fjármálaráðherrann virðist ekki gera neitt annað en að berja hausnum í steininn þegar hann telur fyrirvarana ekki jafngilda því Icesave-samningnum sé hafnað (Jóhann Elíasson).
Til er merkileg fræðigrein sem nefnd hefur verið kremlólógía og felst í því að túlka ummæli stjórnmálamanna og ekki síður tilgang þeirra.
Ég tel rétt að túlka ummæli Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna þannig að þau séu ætluð til heimabrúks. Báðir flokkar hafa einmitt haldið því fram að Bretar og Hollendingar hafi hlunnfarið okkur en ekki öfugt. Framsóknarmenn ganga svo langt að halda því fram að Íslendingar séu enn hlunnfarnir, þrátt fyrir fyrirvarana.
Tilgangur ummælanna er einfaldlega sá að slá sig til riddara. Ríkisstjórnin ætlaði að láta hlunnfara Íslendinga en okkur tókst til allrar lukku að lagfæra stöðuna nokkuð. Það er nokkurn veginn þetta sem verið að koma á framfæri.
Og að því er varðar höfuð fjármálaráðherrans og steininn, held ég að við skulum bara bíða og sjá. Ég leyfi mér að efast um að viðbrögð Breta og Hollendinga verði mjög hörð. Ég færði nokkur rök fyrir þessari skoðun á heimasíðu minni (www.jondan.is) í pistli í gær Bretar og Hollendingar í klípu.
Eiga að viðurkenna staðreyndir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.