12.4.2009 | 21:29
Eðlilegar skýringar
Það er í sjálfu sér alveg eðlilegt að styrkir fyrirtækja til stjórnmálaflokka hafi náð hámarki á árinu 2006. Um haustið náðist loksins samkomulag um að koma lögum yfir þessa fjáröflun. Lögin voru samþykkt fyrir jól og tóku gildi 1. janúar 2007. Samkvæmt þeim er flokkunum óheimilt að taka við hærra framlagi en 300 þúsund kr. frá hverju fyrirtæki.
Þetta þýddi ósköp einfaldlega að fram til áramóta var "síðasti séns" að nálgast hærri fjárframlög. Þegar það er tekið með í reikninginn að flokkarnir voru eðli málsins samkvæmt trúlega flestir skuldugir eftir sveitarstjórnakosningar vorið 2006 og alþingiskosningar voru á næsta leiti, vorið 2007, er ekkert skrýtið þótt menn nýttu þessa "tímaglufu" til að afla fjár áður en nýju lögin tækju gildi.
Við þetta er í sjálfu sér ekki margt að athuga. Nú hefur komið fram að Landsbankinn hafði fyrr á árinu styrkt Sjálfstæðisflokkinn um 5 milljónir. Í því ljósi geta hæstu styrkir til Framsóknarflokks og Samfylkingar, einmitt 5 milljónir, varla talist "út úr korti".
En um 30 milljónir og 25 milljóna viðbótarstyrk frá Landsbankanum gegnir óneitanlega dálítið öðru máli. 30 milljónirnar sem komu inn á reikning Sjálfstæðisflokksins þann 29. desember 2006, voru 100-föld sú upphæð sem flokknum hefði verið leyfilegt að þiggja frá FL-Group aðeins þremur dögum síðar.
Og enn og aftur. Ungi framkvæmdastjórinn sem þorði ekki að taka við öllum þessum peningum á eigin ábyrgð, heldur spurði sjálfan formann flokksins - hann var krossfestur opinberlega á föstudaginn langa. Merkilegt nokk hef ég ekki orðið var við neina upprisu hans í dag.
Andri Óttarsson kynni þó að eiga framtíð fyrir sér á "Nýja Íslandi". Hann sýndi nefnilega á sinn hátt ábyrga hegðun, með því að spyrja Geir H. Haarde. Andri Óttarsson er kannski nokkuð heiðarlegur, ungur maður.
Fengu meiri styrki árið 2006 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Nokkuð sammála þér... Andri Óttarsson og mikla framtíð fyrir sér og það sem ég haf séð og heyrt til hans er nokkuð jákvætt...:-D
Pétur Ásbjörnsson (IP-tala skráð) 12.4.2009 kl. 21:36
Mér er spurn, hver er hin almenna regla þegar kemur að styrkveitingum til þeirra sem fara fram í prófkjörslag, er litið á´það fé sem safnast sem þeirra eigið fé, eða verða viðkomandi að gera grein fyrir styrktarframlögum í sína sjóði? Það er ekki síður nauðsynlegt að vita hverjir standa á bakvið hina einstöku frambjóðendur ekki síður en flokka! Í þessu sambandi má alveg eins spyrja, hverjir styrktu t.d. Guðlaug Þór í prófkjöri síðast? Önnur spurning er þessi, geta þeir sem fram fara í prófkjör litið á það sem safnast í þeirra sjóði sem sitt eigið fé og þar af leiðandi kannski bara stungið afgangi í vasann ef einhver er í lokinn.
Gunni Tryggva, 12.4.2009 kl. 22:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.