15.6.2012 | 23:54
Skriflegt takk
Stundum hefur verið talað um "heiðursmannasamkomulag". Munnlegt samkomulag og kannski handaband því til staðfestingar.
En nú heimtar formaður Framsóknarflokksins skriflegt samkomulag um þinglok - sem sé hvaða mál verði afgreidd og hvernig. Ætli slíkt samkomulag verði ekki einar 1.500 síður - eftir góða yfirlegu á báða bóga.
Gæti sem sagt verið klárt fyrir jól.
Treystum ekki ríkisstjórninni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.3.2011 | 00:18
Þar fór það
Þetta er sennilega rétt hjá Sigurði á Vaðbrekku. Svo mikið er víst að allnokkur dæmi eru um að sveitarstjórnarkosningar hafi verið ógiltar og þá er alltaf kosið aftur.
Og reynist kæra Sigurðar standast, slær hún stjórnlagaráðið út af borðinu. Vonandi þýðir það þó aðeins frestun um eitt ár eða svo.
Og eftir allt sem á undan er gengið, gæti bara verið frekar hressandi að fá "löglega" kjörið stjórnlagaþing með umboð frá þjóðinni og réttindi til að vísa niðurstöðum sínum beint í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Formlega krafist nýrra kosninga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.11.2010 | 15:53
Hver er tilgangur sekta?
Það er löngu tímabært að gera fólki misháar sektir eftir tekjum. Að einhverjum hluta er tilgangur sekta vissulega að afla tekna í ríkissjóð, en megintilgangurinn hlýtur þó að vera að refsa fyrir afbrotið. Hinn brotlegi á sem sagt að finna fyrir ákveðnum sársauka í veskinu sínu.
Sá sem hefur 200 þúsund í mánaðarlaun og fær 20 þúsund króna sekt, finnur vel fyrir henni, enda er sektin 10% af mánaðarlaununum. Hafi maður milljón á mánuði er sektin ekki nema 2% og varla neitt áhyggjuefni.
Á athugasemdum sem komnar eru við þessa frétt má sjá að sitt sýnist hverjum. Haraldur Haraldsson og Finnur Ólafsson Thorlacius nefna báðir 65. grein stjórnarskrárinnar og jafnrétti gagnvart efnahag. Skemmtilegt íhugunarefni út af fyrir sig, en greinin virðist hingað til hafa verið túlkuð mjög rúmt, eða kannski öllu heldur hinum efnameiri í hag.
Skyldi Baugsmálið t.d. hafa endað eins og það endaði ef sakborningar hefðu ekki sjálfir haft efni á dýrustu lögmönnum landsins? Skyldi Geirfinnsmálið hafa fengið sömu endalyktir ef sakborningar hefðu sjálfir átt peninga til að ráða sér dýra lögmenn?
Ef 65. grein stjórnarskrárinnar á að túlka svona rúmt, hlýtur það að gilda í báðar áttir.
Það er alltaf jafn sérkennilegt að sjá hatursbelging eins í athugasemd Sigríðar Laufeyjar Einarsdóttur. Manndráp heyra ekki til þeirra brota sem eru afgreidd með dálítilli fjársekt. Við þeim liggur fangelsisvist. Því stendur held ég ekki til að breyta með þessu frumvarpi.Lægri sektir hjá tekjulitlum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.11.2010 | 23:45
Hættulegt frumvarp
Lög og réttlæti eru því miður tvö aðskilin hugtök og eiga stundum alls ekkert sameiginlegt. Það gildir hér. Frá sjónarmiði réttlætisins má kalla það skynsamlega hugmynd að setja einfaldlega lög um að öll gengislán skuli gerð upp með sama hætti. En Alþingi er hvorki heimilt að setja afturvirk lög né lög sem brjóta í bága við stjórnarskrá - í þessu tilviki eignarréttarákvæðið.
Landsbankinn gæti gefið út skaðleysisyfirlýsingu vegna þess að hann er í ríkiseigu og skaðinn lendir því á ríkinu hvort eð er. Arionbanki og Íslandsbanki eru í eigu erlendra kröfuhafa og það er barnaskapur að ímynda sér að kröfuhafarnir muni af góðmennsku sinni gefa eftir peninga sem þeir eiga lagalegan rétt til.
Með samþykkt þessa frumvarps leggur Alþingi gríðarlegar ábyrgðir á ríkissjóð, ábyrgðir sem óhjákvæmilega hljóta að falla á hann. Þótt ákveðnar gerðir gjaldeyrislána hafi verið dæmdar ólögmætar, er fullvíst að ýmis önnur gjaldeyrislán verða dæmd lögmæt. Mismunurinn verður sóttur í ríkissjóð með atbeina dómstóla.
Menn skyldu tala varlega um öðlunginn og mannréttindalögmanninn Ragnar Aðalsteinsson. Hann veit nokk hvað hann segir og ég giska á að tilgangur hans með "hótunum" um málssókn sé einmitt sá, að koma Árna Páli og þingmeirihlutanum í skilning um að þessi leið sé einfaldlega ekki fær.
Þessi leið er nefnilega ekki fær, því miður. Hitt er verra að hvorki er vitað hve mörgum hún hjálpar, né hversu marga tugi milljarða hún á eftir að kosta ríkissjóð.
Við verðum að sætta okkur við þá kaldranalegu staðreynd að þegar lögin og réttlætið greinir á, þá gilda lögin.
Og af því leiðir að þetta frumvarp er því miður beinlínis hættulegt.
Bankar veita ekki skaðleysisyfirlýsingar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.10.2010 | 02:40
Gáfaðir krakkar geta þetta
Það er óumdeilt að Menntaskólinn Hraðbraut byggir tilvist sína á samningi við menntamálaráðuneytið. En samningurinn virðist ekki auðtúlkaður. Ég dreg frásögn mbl.is ekki í efa, en samkvæmt henni ríkir nú ágreiningur um hvort ríkið hafi átt að greiða tiltekna fasta fjárhæð á ári til skólans vegna húsaleigu. Og vafalaust er ágreiningur um fleira.
En ...
Hugmyndiner bráðgóð. Að gefa betur greindum krökkum þann möguleika að taka menntaskólanámið á tveimur árum í stað fjögurra.
Ég var sæmilega greindur á unglingsárum og hefði þegið slíkt tilboð með þökkum. Einmitt þess vegna skil ég vel þá krakka (og foreldra) sem velja Hraðbraut.
En þarf slíkur skóli endilega að vera einkarekinn? Þarf slíkur skóli að eiga sér skólameistara sem ekki lætur sér nægja að hafa sæmileg laun, heldur vill líka fá greiddan hagnað?
Af hverju er því haldið svona staðfastlega fram að einungis einkaframtakið geti boðið upp á valkosti?
Ég held að við getum gert þetta sjálf. Ég hygg að tveggja ára menntaskóli fyrir bráðgreinda unglinga geti staðið á eigin fótum án aðkomu fólks sem langar að græða.
En Menntaskólinn Hraðbraut var stofnaður af einkaframtaksmanni og í skjóli þess menntamálaráðherra sem þá ríkti.
Það er svo sem ekki flókið.
En ég spyr: Hvort skiptir máli, menntunin eða hagnaðurinn?
Stendur við útreikninginn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.7.2010 | 03:11
Hver er fréttin?
Allir vita að kosningarnar í Reykhólahreppi vor voru dæmdar af og þess vegna kosið aftur. Kosningaþátttaka þá og nú er ekki málið. % þá og % nú.
En breyttist eitthvað? Féll einhver út sem kosinn var í vor? Komst einhver inn sem ekki náði kosningu í vor? Það er spurningin.
En blaðamenn á Mogganum hafa of mikið að gera til að þefa uppi slík smáatriði - eða vita blaðamenn á Mogganum kannski ekkert í sinn haus?
Mér er satt að segja spurn.
Ný hreppsnefnd í Reykhólahreppi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.10.2009 | 22:40
Stefnuræða á 67 ára afmælinu
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra er 67 ára í dag. Á þessum afmælisdegi láta flestir af störfum og horfa fram á náðugri daga. En ekki Jóhanna. Hún heldur ótrauð áfram og velur sér þennan dag til að halda stefnuræðu sína. Vonandi á ríkisstjórn hennar eftir að ná að hrinda í framkvæmd sem allra flestum þeirra stefnumála sem hún boðaði.
Ríkisstjórnin mun óhikað breyta skattkerfinu til að auka jöfnuð og réttlæti í samfélaginu, segir Jóhanna. Þar með er hún enn fyllilega samkvæm sjálfri sér og heldur áfram þeirri baráttu sem í þrjá áratugi hefur verið hennar helsta hugðarefni í öllum störfum hennar á Alþingi.
Til hamingju með daginn, Jóhanna. Megi þér og ríkisstjórn þinni farnast sem best. Íslenska þjóðin þarf bæði á þér og ríkisstjórninni að halda.
Skattkerfinu breytt óhikað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.9.2009 | 18:25
Blásið í herlúðra
Hér er blásið í herlúðra. Morgunblaðið tekur sér nú stöðu í herbúðum andstæðinga ESB-aðildar og sömuleiðis sægreifamegin víglínunnar í baráttunni um kvótakerfið og einkaeignarrétt á óveiddum fiski í sjó. Undir stjórn Davíðs Oddssonar verður Morgunblaðinu óspart beitt á báðum þessum vígstöðvum.
Um leið eru náin tengsl Sjálfstæðisflokksins og Morgunblaðsins öllum ljós. Mogginn hefur undanfarin ár verið í einhvers konar feluleik, en varpar nú af sér hjúpnum og stígur fram sem það málgagn flokksins, sem hann hefur í rauninni alltaf verið. Það er út af fyrir sig gott að sá feluleikur skuli nú vera á enda.
Hitt er svo umhugsunarefni hvar raunveruleg völd í Sjálfstæðisflokknum liggja, eftir að Davíð Oddsson stígur á ný fram á blóðvöllinn. Verður það í raun hin opinbera forysta, með Bjarna Benediktsson í fararbroddi, sem markar stefnuna, eða verður Davíð kannski fljótlega orðinn eins konar yfirformaður í flokknum?
Svo mikið er víst að óhætt er að óska kvótakóngum og ESB-andstæðingum til hamingju. Vígfimari baráttumaður og hvassari penni en Davíð Oddsson er vandfundinn.
Davíð og Haraldur ritstjórar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.9.2009 | 00:31
Það eina sem vantaði
Var þetta eiginlega ekki eina auglýsingin sem okkur Íslendinga vantaði til viðbótar á alþjóðavettvangi?
Svo má auðvitað velta fyrir sér hvort Svíar vilji í framhaldinu setja sama stimpil á alla Íslendinga í Svíþjóð - svona í stíl við það hvernig farið er að tala um Pólverja hér, eftir að hingað var sendur hópur Pólverja til innbrota.
Íslendingur sagður á bak við milljarðasvikamyllu í Svíþjóð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.8.2009 | 16:56
Hér þarf aðferðir kremlólógíunnar
Sitt sýnist hverjum um ummæli formanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Ýmist virðast menn álíta að ætlunin sé að koma þeim skilaboðum til Breta og Hollendinga að við séum að reyna að snuða þá (Magnús Helgi Björgvinsson), eða þá að fjármálaráðherrann virðist ekki gera neitt annað en að berja hausnum í steininn þegar hann telur fyrirvarana ekki jafngilda því Icesave-samningnum sé hafnað (Jóhann Elíasson).
Til er merkileg fræðigrein sem nefnd hefur verið kremlólógía og felst í því að túlka ummæli stjórnmálamanna og ekki síður tilgang þeirra.
Ég tel rétt að túlka ummæli Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna þannig að þau séu ætluð til heimabrúks. Báðir flokkar hafa einmitt haldið því fram að Bretar og Hollendingar hafi hlunnfarið okkur en ekki öfugt. Framsóknarmenn ganga svo langt að halda því fram að Íslendingar séu enn hlunnfarnir, þrátt fyrir fyrirvarana.
Tilgangur ummælanna er einfaldlega sá að slá sig til riddara. Ríkisstjórnin ætlaði að láta hlunnfara Íslendinga en okkur tókst til allrar lukku að lagfæra stöðuna nokkuð. Það er nokkurn veginn þetta sem verið að koma á framfæri.
Og að því er varðar höfuð fjármálaráðherrans og steininn, held ég að við skulum bara bíða og sjá. Ég leyfi mér að efast um að viðbrögð Breta og Hollendinga verði mjög hörð. Ég færði nokkur rök fyrir þessari skoðun á heimasíðu minni (www.jondan.is) í pistli í gær Bretar og Hollendingar í klípu.
Eiga að viðurkenna staðreyndir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)